Hvernig á maður að meta hvaða stýrikerfi sé best? Nær allir fagmenn í tölvugeiranum hafa skoðun á þessu og hver og einn hefur sínar forsendur. Umræður um þetta – á kaffistofunni – geta verið mjög hressandi og skemmtilegar en þær skila aldrei neinni niðurstöðu.
Eins og einn fagmaður sagði eitt sinn; Það skiptir engu máli með hvaða hamri þú rekur nagla.
Á þeim árum sem ég gaf út ET-Tölvublað, sem var frá ‘93 til ‘97 var hvert tölublað brotið um í PC tölvu, fyrst með PageMaker og síðar með QuarkXpress. Þegar farið var með umbrotið í prentsmiðju var því yfirleitt skotið út á filmur úr Macintosh vél en stundum með PC vél og fyrir kom að ég þurfti að fara með mína vél í prentsmiðjuna.
Macintosh mennirnir gerðu oft grín að þessu og lofuðu mér að þetta yrði bara vandamál og það var rétt hjá þeim. Vandamálin voru nær öll þau að finna rétta rekla fyrir PC vélina til að koma á samskiptum hennar við filmuprentarann. Um leið og maður fann réttann rekil og gat stillt tölvuna þannig að hún nýtti hann rétt, var vandamálið horfið.
Einstöku sinnum kom það fyrir á fyrstu tveim árunum að einhver vandamál kæmu upp varðandi leturgerðir og þá fyrst og fremst með TTF leturgerðirnar en ef maður notaði „Adobe Font Manager“ (sem fékkst fyrir PC) og þá Adobe leturgerðirnar var sá vandi leystur.
Á þessum árum var hægt að fá helstu DTP forritin fyrir bæði Mac og PC og voru þau yfirleitt álíka góð. Mest var notað af Freehand og Illustrator fyrir teikningar, QuarkXpress fyrir umbrot og Photoshop fyrir myndir. Þó er þessi listi alls ekki tæmandi og þetta hefur breyst á síðustu tveim áratugum.
Lesandinn gæti nú freistast til að segja við sjálfan sig að þessi reynsla sé orðin úrelt og það er vel hugsanlegt að svo sé en sé betur rýnt í forritaflóru DeskTop Publishing heimsins sést að þessi reynsla er enn í gildi. PageMaker er horfinn og QuarkXpress er að hverfa, InDesign hefur tekið við af þeim báðum. FreeHand er horfið og Illustrator hefur tekið við af honum og enginn segir frá því (rétt eins og þá) ef hann notar CorelDraw.
Framangreindur listi er meira til gamans en í fullri alvöru og aftur mætti gera langan lista yfir hin og þessi forrit sem menn vilja nota við ýmsar aðstæður og rétt eins og með stýrikerfin geta umræður á kaffistofunni orðið virkilega skemmtilegar (og jafnvel fræðandi) en niðurstaðan er ávallt sú sama.
Þú notar það verkfæri sem virkar og ef það virkar illa þá leysirðu úr því.
Þessi grein er önnur í röðinni af greinum ársins 2020 en ég hef ekki skrifað um tölvur og tölvunotkun í mörg ár. Vefsíðan nalgun.is hefur fengið ákveðna umferð síðustu ár þó langt sé síðan ég hætti að rita um tölvur. Margir vita að ég hef ritað umtalsvert af kennslubókum í notkun ýmissa forrita auk þess að hafa gefið út tímarit um tölvunotkun en ég kenndi á tölvur í átta ár.
Eftir þó nokkra umhugsun síðustu þrjú árin hef ég – hægt og rólega – komist að þeirri niðurstöðu að það sé ástæða til að hefja skrif um þessi mál að nýju en frá öðrum sjónarhóli en áður. Fyrsta greinin ber þess merki: Hvaða forritunarmál á ég að nota? Svarið er heimspekileg hugleiðing en ekki tæknileg fullyrðing.
Það er til nóg af útskýringum – hérlendis sem erlendis – á því hvað sé Occam’s Razor eða hvernig á að stilla WordPress eða hvernig eigi að stilla Oracle eða PostgreSQL, hvort best sé að leysa eitthvað með Lisp eða Python eða hvers vegna menn séu hættir að nota Perl eða hvort Scala sé betra en Java.
Ef þú ert að leysa vandamál í tölvunni og þig vantar lausn hratt, þá ferðu mjög líklega á StackExchange sem hefur á síðustu tíu árum því sem næst sigrað heiminn hvað varðar umræður fagaðila um réttar eða besta lausnir á hinu og þessu. StackExchange er byggt á þeirri hugmynd að notendur sjálfir ritskoða vefinn og velja og hafna hvaða lausnir henti og hvaða spurningar eigi erindi og hverjar ekki.
StackExchange virkar vel og skilar ágætum lausnum en ég hef tekið eftir því á síðustu árum – en það tók mig langan tíma að taka eftir því – hvaða lausnir vantar inn og hvaða hugarfar ræður ríkjum hjá þeim Samhljóm sem þar hefur skapast. Fólk tekur ekki eftir því þegar lýðræðið fær ritskoðunarheimild að viss flatneskja tekur völdin.
Tökum dæmi af þeirri sósíalísku ritskoðun sem tekið hefur völdin á YouTube, Facebook og Twitter – auk annarra samfélagsmiðla. Á þessum vefjum er stíf ritskoðun sem er starfrækt af sömu aðilum og reka vefina en sú ritskoðun tekur einnig mið af ábendingum notenda.
Wikipedia passar inn í þennan hóp þó það sé ekki samfélagsmiðill en sífellt fleiri ræða um það í þekkingarheimum að öflugur hópur ritstjóra og efnismiðlara kemur að þeirri síðu og kemur oft í veg fyrir – með hreinu ofbeldi – að upplýsingar séu fullkomlega hlutlausar og réttar.
Það er vaxandi hópur menningarrýna um allan heim sem eru sífellt á höttunum eftir hlutlægu efni og eru stöðugt að svipast um eftir vefmiðlum sem geta komið í staðinn fyrir alla þá miðla sem hér eru nefndir.
Ekki vegna þess að miðlarnir hafi rangt eða vont efni heldur vegna þess að þeir eru mun huglægari en hlutlægari og þegar fólk tekur eftir því, tekur það einnig eftir að á bak við efnismiðlunina getur verið heimsmynd (eða hugarhögun) sem stýrir vali á efnisframsetningu sem hafi mun meira mótandi og jafnvel skaðlegri áhrif en í fyrstu blasir við.
Þegar ég nefni StackExchange í þessu samhengi er ástæðan sú að ég tók öðru hvoru eftir efni sem birtist í skamman tíma og var svo eytt út, oft efni sem var hugsanlega ekki samkvæmt einhverjum viðmiðum eða staðli en engu að síður hvatti til umhugsunar.
Á ensku er til setningin „out of sight, out of mind“ sem ég hef reglulega notað í eigin þýðingu sem „úr augsýn úr hugsýn.“ Þegar eitthvað vantar inn í myndina sem okkur er sýnd og ef nóg framboð er á einhverju til hugleiðingar þá í fyrsta lagi tökum við ekki eftir hvað vantar í myndina og í öðru lagi vörum okkur ekki ef smámsaman er verið að móta hvað við sjáum og hvernig.
Þegar ég skrifaði kennslubók um notkun á StarOffice á sínum tíma (sem í dag er ýmist þekkt sem OpenOffice eða LibreOffice) tók ég eftir að ritvinnslustaðall eða töflureiknisaðferð þar er örlítið frábrugðin Microsoft Office og CorelOffice, og að þó öll þrjú noti sömu staðlana er högun þeirra og nálgun á staðlana örlítið frábrugðin.
Þetta kann að skipta litlu máli frá degi til dags ef niðurstaðan er sú sama; Vel gerð hugverk, hvort heldur úr texta eða tölum.
Vissulega má rífast á kaffistofunni um hvað manni líki best eða hvað sé þægilegast. Við tökum hins vegar ekki eftir því að hugbúnaður er ekki bara lausn á vandamáli (samanber grein mína um forritunarmál sem er sú síðasta á undan þessari), heldur mótar forrit oft hugarferla á sama tíma og við notum það.
Hvernig ég hugsa um lausn mína á einhverju á meðan ég nota þann hamar eða hugbúnað sem er verkfærið á hverjum tíma getur þegar lengra er litið haft áhrif á gæði og varanleika þeirra lausna sem ég vinn með.
Þegar ég starfaði sem tölvukennari tók ég eftir að venjulegir nemendur – og notendur frá fyrirtækjum – sem voru mættir í kennslustofu höfðu engan áhuga á því hvort þeir notuðu Linux eða Windows. Þeir vildu vita hvernig þeir vistuðu skjöl og finndu þau aftur, skítt með hvort það væri með haganlegri, réttri, eða annarri aðferðinni. Meðan þeir gátu lært aðferðina og nýtt sér hana í vinnu eða námi, var markinu náð.
Ég þekki fólk sem notar Ubuntu vegna þess að einhver tók þá ákvörðun fyrir heimilið eða vinnustaðinn en veit varla af því, og segir „ha“ þegar ég bendi á að það er Linux en ekki Windows. Ég þekki fólk sem veit ekki hvort það notar Windows sjö, átta eða tíu.
Allir sem keyra bíl vita hvernig á að keyra bíl og hvaða stjórntæki hann hefur og í gegnum áratugina hafa mismunandi framleiðendur stjórntækja fyrir bifreiðar sætst á að nota allir sömu aðferðina. Þú þarft ekki að taka sér bílpróf fyrir Toyotu eða BMW og hér kemst ég í mótsögn við sjálfan mig.
Stýrikerfið og sá hugbúnaður sem er í boði fyrir það hefur vissulega mótandi áhrif á hvernig ég hugsa og hver séu gæði vinnu minnar, en munurinn felst ekki endilega í því hvort ég visti endilega á sama hátt eða finni skjöl á sama hátt eða hvort eitt stýrikerfi sé verjanlegra fyrir árásum frekar en annað.
Hvort virkar betur í snjó, sjálfskipting eða beinskipting? Er betra að vera á 31 tommu eða 38 tommu eða einhverju öðru þegar kemur að vetrar- og fjallaferðum? Er betra að nota dísel eða bensín, hybrid eða rafmagn? Ég þekki bifvélavirkja sem keypti rafbíl fyrir konuna og þeim þykir báðum sá bíll virka vel, en það hvarflar ekki að þeim að fara út fyrir bæinn á honum eða með alla fjölskylduna, því hann virkar einungis vel við vissar aðstæður.
Þessar hugleiðingar eiga erindi en hver er spurningin sem hvergi er spurð?
Hvaða staðall er alþjóðlegur í dag um a) hvað stýrikerfi á að gera og b) hvernig það eigi að gera það? Er einhver staðalviðmiðun um hversu erfitt eða auðvelt sé að setja það upp og er einhver staðalviðmiðun til um það hversu auðvelt eða erfitt sé að tryggja öryggi uppsetningarinnar eða fínstilla það að kröfum notenda s.s. með tilliti til diskstærðar og hvort notenda umhverfi þess auðveldi lausnamiðaða vinnu eða sé til trafala?
Hvernig stendur á því að Evrópusambandið hefur sett öllum vefurum kröfur um Cookies en ekki staðal um það hvernig skuli velja stýrikerfi eða skrifstofuhugbúnað eða bókhaldslausnir? Hvar er staðallinn og hvernig stendur á því að þegar maður nefnir þessar spurningar við háskólamenntað fólk sem vinnur hjá stórum fyrirtækjum og opinberum stofnunum, að það setur upp tóman svip og gapir? Hvar er hugsunin og eftir hvaða brautum rennur hún?