Að velja sér verkvang

Þegar ég vann að MySQL bókinni sumarið 2003, hafði ég nær aldrei notað Linux. Hafði sett RedHat inn á eina eða tvær vélar, fiktað eitthvað í pakka-kerfinu, lært pínupons á GUI skelina sem þá var vinsælust (en man ekki lengur hver var) og oft lent í vandræðum að fá grafíska notendaskel til að virka ef ég setti hana ekki inn með innsetningunni.

img-coll-0504Hversu oft hafði maður hitt Linux notendur sem gátu haldið yfir manni langar og leiðinlegar ræður um ágæti Linux og manni fannst að maður yrði að prófa. Þar sem MySQL átti uppruna sinn á þeim verkvangi og fyrst ég var að vinna bók um kerfið, lá í augum uppi að ég yrði að fara alla leið og læra að nota Linux, sem ég og gerði.

Eitt af því sem ég hafði einnig prófað var að setja upp bæði NetBSD og FreeBSD, en það er vesen að setja þau upp nema maður sé vanur Unix og hafi varatölvur til að nota ef maður lendir uppi á skeri. Síðast þegar ég setti þessi kerfi upp (fyrir minna en ári síðan) lenti ég í því að tölvan varð gjörsamlega ónothæf.

Þá var auðvelt að stroka hálf-uppsett kerfin út, en í hvert sinn sem ég ætlaði að hreinsa USB lykilinn í Linux vél, fraus vélin, sama hvaða ráðum var beitt. Smá grúsk á BSD síðum (í Windows vél) leiddi í ljós að vandinn var þekktur og að eina leiðin var að hreinsa USB lykilinn með Windows verkfæri og sneiða hjá USB uppsetningunni fyrir kerfið.

Framangreint hjúpar á margan hátt alla mína reynslu af þessum tveim verkvöngum. Þó segja megi margt um Microsoft Windows í gegnum árin, þá stendur tvennt upp úr; Þegar borið er saman hversu margir nota Windows og hversu margskonar vél-, og hugbúnaður kemur inn í myndina, stendur Windows sig mjög vel.

BSD er mjög spennandi stýrikerfi og þeir sem hafa gott vald á því eru víða að reka mjög áhugaverðar þjónustur á því. Einhverjir segja að Netflix keyri miðlana sína á BSD og margir vita að NextOS og MacOS er byggð ofan á BSD útgáfu. Færri vita að BSD er löngu farið að nota opna Linux kjarnann.

Taki maður snúning á tveim vinsælustu Linux útgáfum samtímans, Fedora og Ubuntu, kemur á daginn að Anaconda sem er innsetningarkerfi RedHat (sem gefur út bæði CentOS og Fedora) virkar mjög mismunandi, ef nokkuð, ef vélin þín er eingöngu með SSD diska. Ubuntu hins vegar flýgur inn við flestar aðstæður.

Nú vita margir að Ubuntu er byggt á Debian, sem er frábært kerfi ef þú rekur Netþjóna, en Debian getur verið hræðilegur höfuðverkur að eiga við ef það flýgur ekki beint inn. Janvel Linus Torvalds, Linux páfinn, hefur haft orð á þessu.

Ef maður ætlar sér að gera upp á milli stýrikerfa, þá þarf maður að þekkja þau öll, en hér er aðeins verið að snerta á yfirborðinu á toppnum á ísjakanum.

Ef við skoðum toppinn sjálfan á ísjakanum er gott að benda á umræður og vangaveltur frá Bryan Lunduke, en hann tekur reglulega fyrir og prófar ýmis minna þekkt stýrikerfi. Þeir sem fylgjast með honum komast að því að til er haugur af stýrikerfum sem lofa mjög góðu, sem eru hvorki Win eða Posix baseruð, og eru mörg hver hönnuð frá byrjun með grafíska skel.

Mín skoðun er sú að eftir tuttugu til þrjátíu ár verði bæði Windows og Posix fjölskyldan horfin; Því það eru svo margir gallar á þessum kerfum að eina leiðin til að finna raunhæfa stýrikerfaþróun framtíðarinnar er að byrja aftur á grunni. Fyrst ég er byrjaður; Ég er farinn að efast um að tvíundarkerfið sé besta leiðin til að þróa tölvur en get ekki rökstutt það, ennþá.

Einn stærsti vandi tölvuheimsins er sá að meirihluti þeirra sem starfa að vél- og hugbúnaðarþróun eru efnishyggjufólk sem nær alltaf er bókstafstrúar og eru þar að auki aldir upp við að trúa því að þekking þeirra og rökhugsun sé gáfuleg raunhyggja þegar hún sannanlega er það ekki.

Þú færð ekki skapandi hugsun frá slíkri hjörð og  þessi hjörð stjórnar heiminum að miklu leyti í dag, svo það er mjög eðlilegt í því ljósi að allar götur síðan 1975 hefur engin nýbreytni átt sér stað í tölvuþróun.

Það er auðvelt að sýna fram á að allt sem gerst hefur á sviði tölvuþróunar – bæði í vél- og hugbúnaði – síðustu fjóra áratugi, er byggt á hugmyndum og uppfyndingum sem komnar voru fram árið 1975. Hið eina sem hefur breyst er slípunin og útbreiðslan, jú og smækkunin samfara reiknihröðun.

Þegar Windows 7 kom út, gaf ég sjálfum mér það loforð að ég myndi ekki taka inn fleiri Windows útgáfur á vinnutölvurnar mínar og hef staðið við það. Í dag nota ég til jafns Ubuntu og Windows 7 á borðvélunum en Linux Mint á fartölvum. Ein þeirra er ennþá með Windows 7, en það fylgdi henni og má vera þar á meðan það er ekki fyrir mér.

Lengi vel voru það þrjú forrit sem stóðu í veginum fyrir að ég færi alla leið og eyða Microsoft Windows út af vélunum mínum.

Þó sambærileg forrit væru til fyrir Linux umhverfi þá voru vinnuferlar þeirra of stirðir og leiðinlegir fyrir mínar þarfir, það hefur breyst og í dag myndi ég ekki sakna Windows að neinu leiti ef ég tæki skrefið til fulls. Skref sem ég geri ráð fyrir að fullna á komandi misserum.

Forritin þrjú sem ég hélt í voru Photoshop, EditPlus og Word 2003. GIMP hefur ávallt verið ónothæft forrit þegar kemur að verkferlum en Krita lofar mjög góðu og fæst bæði fyrir Windows og Linux. Þó margir textaritlar séu í boði sem gætu komið í staðinn fyrir EditPlus, þá er Geany sá eini sem hentar þörfum mínum við forritun og grunnvinnslu, auk þess að vera til fyrir báða verkfvanga. Varðandi Word 2003 – sem er besta ritvinnslan frá Microsoft – þá hefur lengi verið í boði að nota OpenOffice og LibreOffice – auk annarra.

Það verður þó að segjast eins og er að LibreOffice er nærri því ónothæft í kröfuharðri ritvinnslu og þó OpenOffice sé skárra þá hefur það einn stóran ókost – sem óþarfi er að fara út í.

Það er margt sem maður getur tjáð sig um þegar kemur að tölvuvinnslu.

Hverjum líkar við hvaða forrit og hvers vegna, má ræða um fram og aftur í mörgum skemmtilegum smókpásum. Það breytir ekki megin niðurstöðunni; Það er þess virði að velta fyrir sér hvaða hugbúnaðarumhverfi hentar þörfum manns, hvernig þau stuðla að betri og verri vinnubrögðum og síðast en ekki síst að velta fyrir sér hugmyndafræðinni sjálfri.

Í dag nota ég helst ekki neinar Google vörur og sneiði eins og ég get hjá Microsoft. Þegar vöruframleiðandi er orðinn svo stór að hann einokar markaðinn, hvort sem ástæðan er vilji fólks til að nota vöruna (eins og með Google) eða vegna elítuþráða sem fáir skilja (eins og með Microsoft), þá rammast maður alltaf inni ef maður lætur leiða sig í blindni eftir göngustíg sem maður myndi síður vilja ef maður sæi hann.

Það hefur aldrei verið mannkyni til góðs að veðja á einn hest og eina aðferð, en því miður hefur það verið viðleitnin síðustu hundrað ár eða svo að allir séu á sömu bókina, á sömu hestakerrunni, af engri ástæðu annarri en að þar eru allir hinir.

Rannsókn á sögunni síðustu sex þúsund ár leiðir í ljós að við gerum þetta. Við veðjum á sterkasta hestinn, af því bara, þangað til við sjáum að hann er orðinn haltur, þá leitum við að þeim næsta og finnum hann. Rétt eins og Ásatrúarmenn kenndu fyrir rúmum þúsund árum; Ragnarök er ekki heimsendir heldur gátt fyrir næsta hring upp í spíralnum.

Næsti hringur er í meginatriðum eins, nema þrepi ofar, þar sem mistök þess síðasta eru slípuð út en eitthvað raunhæft situr eftir, en þó hálfgleymt.

Ég hef áður rætt um hvernig uppáhalds forritunarmálið mitt, sem er Java, er orðið ömurlegt vinnuumhverfi til að þróa hugbúnað í. Samtímsis því að ég hef komist að þessari niðurstöðu, er ég að endur uppgötva gamla C og gamla Pascal og komast að því að þeir sem nota þessi kerfi eingöngu, smíða besta hugbúnaðinn.

Eins er með alla gróskuna í gagnagrunnum, gamli góði dBase með góðum index og sérsniðinni framhlið og MariaDB með MYISAM töflum eru bestu grunnarnir. Gróskan í Open Pascal og Lazarus er feykispennandi og flestir í þeim klúbbi smíða góðan hugbúnað, auk þess að hægt er að forrita á mörgum verkvöngum.

Þegar ég segi fólki að Android síminn er eingöngu notaður heima til að athuga hvað er að gerast í fréttum á morgnana eða tékka á Facebook og Twitter fyrir háttinn, en gamli góði takkasíminn er í vasanum þegar ég fer út úr húsi, þá kinkar fólk yfirleitt kolli. Þeir sem hika og hugsa sig um, eru fljótir að kinka kolli þegar ég vippa símanum upp úr vasanum og slæ inn númer með annarri hendinni án þess að líta á hann.

This entry was posted in Greinar and tagged , , . Bookmark the permalink.

Comments are closed.