Þegar maður ákveður hvað sé besti hugbúnaður, er það yfirleitt byggt á huglægu mati og smekk. Þegar aðrir reiða sig á þetta mat t.d. við þær aðstæður að notendur í fyrirtæki treysta kerfisstjórum eða forriturum til að ákveða hvað nýtist þeim best, hefur þetta afleiðingar um langan tíma.
LibreOffice – OpenOffice – Microsoft Office
Ég er vanur að nota Ctrl+Backspace þegar ég hætti við eitt eða fleiri orð í texta, en þannig strokar maður út heilt orð í einu. Hafi maður byrjað setningu á þrem orðum, þarf bara þrisvar að stroka út og byrja aftur.
Í Micrososft Word strokar þessi aðferð ekki út aftasta bilið við fjórða orð eða punkt, en í OpenOffice fer bendillinn alveg upp að fjórða orði. Sé maður vanur að vélrita mjög hratt og noti MS-Word og OO-Writer jöfnum höndum t.d. að maður sé með Linux á borðtölvunni og Windows á fartölvunni þarf ósjálfráð hegðun fingranna að venjast muninum.
Þegar ég nota LibreOffice Writer finn ég minna fyrir þessu. Eins er með sniðmát (Template) fyrir þessar þrjár ritvinnslunnar. Ég er innan við fimm mínútur á ný uppsettu MS Word að stilla grunn sniðmátið fyrir ný ritvinnsluskjöl til að vera með rétta leturgerð, línubil og ofanvið/neðanvið stillingar fyrir efnisgreinar (Paragraph).
Það tók mig tíu til fimmtán mínútur að finna út hvernig best væri að endurstilla þetta fyrir LibreOffice þegar ég ákvað að fjarlægja það af Linux vélinni og setja inn OpenOffice í staðinn tók það mig tíu mínútur til viðbótar að finna út hvernig þetta væri öðruvísi þar.
Þetta með orðabilið getur verið mjög pirrandi og er meira áberandi á Linux en í Windows. Ég man ekki lengur hvernig þetta var í WordPerfect eða AbiWord.
Í fyrirtækjum þar sem ritvinnslur eru mikið notaðar, er sjaldgæft að skrifstofufólk sé meðvitað um notkun sniðmáta við notkun ritvinnslu eða töflureikna og mismunurinn á þeim skrifstofuvöndlum sem hér eru nefndir skiptir þetta engu máli varðandi hver þeirra sé betri eða verri.
Ástæðan fyrir að ég hafði fyrir því að fjarlægja LibreOffice og setja upp OpenOffice í staðinn er byggð á persónulegum skoðunum. Þó má benda á ýmsa punkta. Þegar maður er vanari OO og þarf að vinna með LO finnur maður fljótt að annar vöndullinn er minnisléttari fyrir tölvuna og vinnur hraðar með þung skjöl, svo eitthvað sé nefnt.
Ýmis smáatriði við vinnslu valda því að mér finnst þægilegra að vinna í OO ef ég er að vinna tímunum saman við skrif og þá sérstaklega ef ég vinn með þung skjöl. Eitt lítið atriði mætti koma hér fram, til gamans. OO leifir mér að velja á milli tveggja tegunda af valgluggum til að opna skjöl og vista.
Þetta skiptir venjulegan notanda engu máli en þegar ég skipti yfir í OO getur verið gott að vita fyrir notendaþægindi að að maður getur skipt á milli. Algjörlega er um huglægt mat að ræða um hvort eitt sé betra en annað. Þar sem ég vinn mikið með texta, nota ég OO að staðaldri í Windows tölvunni og LO í Linux vélinni.
Hér má koma fram að þegar allt landið skipti á einu bretti yfir í MS Office 7, vegna þess eins að það var nýútkomið og kerfisstjórar skelltu því inn, unnu þúsundir starfsfólks í stofnunum, stærri fyrirtækjum og skólum um land allt á hálfum afköstum og kvörtuðu sáran.
Þetta fólk átti þó hvergi neinn vettvang til að ræða óánægju sína, enga ferla til að skilgreina hvort áánægjan væri hlutlæg eða huglæg og þegar þeir ympruðu á þessu var svarið iðulega; Tölvumaðurinn setti þetta upp, hann veit best, auk þess er þetta nýtt.
LO kemur sjálfkrafa með flestum Linux distróum í dag, svo maður er ekkert að spá of mikið í þetta, maður opnar bara ritvinnslu og vinnur.
Myndvinnsla
Eitt sinn var tekin sú ákvörðun í stóru fyrirtæki þar sem ég vann í hálft þriðja ár, að kaupa Photoshop Express fyrir ákveðið verkefni. Þegar ákvörðunin var tekin af yfirmanni hugbúnaðarsviðs, notaði hann umsagnir tveggja sérfræðinga sinna til að taka ákvörðun. Annar sérfræðingurinn vildi að GIMP væri sótt frítt en hinn vildi PE.
Sá sem vildi GIMP benti á að sá hugbúnaður hefur verið til árum saman, að komin er góð reynsla á hann og auðvelt að nálgast upplýsingar ef uppkoma villur (Bugs). Ennfremur að GIMP býður upp á allar aðferðir og staðla sem notaðar eru við stafræna myndvinnslu en að Photoshop Express er takmarkaðri í fídusum og kostar peninga (þó upphæðin sé lág).
Hinn sérfræðingurinn benti á að námskúrfan fyrir fólk sem þyrfti að vinna með myndir væri mjög brött og óþægileg í GIMP. Það tæki marga klukkutíma fyrir fólk sem væri vant verkferla-þægindum Photoshop að komast framhjá vissum þröskuldum í GIMP ferlum.
Hann benti auk þess á að fyrir fólk sem ekki væri sjálfsöruggt í grúski og verkferlamótun tæki langan tíma að komast framhjá þessum þröskuldum. Þá skipt vissu máli að GIMP er leiðinlegt forrit að vinna í og því myndi það hamla sumu starfsfólki að finna hjá sér hvöt til að fikta sig áfram og finna upp á nýjum aðferðum eða útkomum í myndvinnslu og því gæti það komið niður á verkefninu sem forritið ætti að styðja við.
Yfirmaðurinn og aðrir starfsmenn sem voru vitni að samræðunum, tóku talsvert mark á þeim fullyrðingum að annað forritið væri betra því að það væri frítt og hefði alla myndvinnslu fídusa. Hugbúnaðar sérfræðingurinn í þessu tilfelli var þess fullviss að það væri betra, auk þess sem það væri Open Source (sem er tískuyrði en ekki ábending um gæði).
Síðari sérfræðingurinn (sem er yðar einlægur) spurði þá hinn eftirfarandi spurninga:
1. Hversu oft hefurðu unnið 200 myndir í runu til að setja inn í 150 síðna bók, og síðan þurft daginn eftir að taka þær allar út, til að breyta „Levels“ í þeim og „Contrast“ (sitt í hvoru lagi) og setja þær inn aftur?
2. Hversu oft hefurðu þurft að taka 1.500 myndir út úr Vefsetri og meðhöndla þær á innan við átta tímum til að laga og uppfæra vefsvæðið? Hversu oft hefurðu borið saman hvort verkferlar G og P séu hraðvirkari þegar kemur að slíku?
3. Geturðu fullyrt að annað forritið (þó það hafi fleiri fídusa og sé frítt) sé vinnu- og tímasparandi þegar kemur að flóknum verkferlum og þar með talið sé ódýra í Total Cost of Ownership (TCO)?
Þessar þrjár spurningar gerðu sérfræðinginn, sem starfsmenn litu til um ráðgjöf, kjaftstopp. Öllum þessum spurningum gat sá svarað, sem mælti með Photoshop Express, en hann myndi þó í dag mæla með Paint.NET í staðinn enda hefur það allt sem þarf fyrir þær aðstæður sem þarna voru og styður þægilega verkferla.
Þegar ég vinn myndvinnslu í Linux, nota ég GIMP og hef notað árum saman. Það skal viðurkennast að mér finnst þetta forrit hræðilegt þegar kemur að afköstum og vinnuferlum. Mörg fáránleg atriði mætti tiltaka en þau skipta mig þó litlu máli, því ég hef lært að leiða óþægindin hjá mér og venja mig við verkferlana.
Ég veit þó af víðtækri reynslu að það er sjaldgæft að fólk ögri sér á þennan hátt þó ég hafi gaman af því sjálfur.
Hægt er að nota kde forritið Krita í staðinn fyrir GIMP og þá bæði á Windows og Linux en Krita er ekki ennþá orðið nógu traust á Windows til að ég vilji notað það á báðum verkvöngum (Platform) svo ég þvinga sjálfan mig til að nota GIMP og læra að komast framhjá verkferlahnökrum og óþægindum.
Ég reikna þó með því að einn daginn muni Krita eða eitthvað annað opið forrit geta tekið við. Nýlega var ég að vinna með fimmtíu myndir fyrir leiðbeiningar sem ég hafði verið beðinn um. Eitthvað smáatriði í verkferlum pirraði mig mjög, auk þess að leiðbeiningar sem ég Gúglaði mér virkuðu ekki.
Tek ég þá eftir að ég þurfti að uppfæra úr 2.8 í 2.10 til að komast í uppfærða verkferla. Það tók mig hátt í tvo tíma að hreinsa út gömlu útgáfuna. sem var sett upp með apt og setja inn nýjan með flatpak. Í dag myndi það taka mig hálftíma, enda búinn að setja upp flatpak í vélinni.
Ég nefni þetta því þó ég kunni að setja upp tölvukerfi og smíða hugbúnað, þá er ekki sjálfgefið að notandi tölvunnar sem sér um framleiðni fyrirtækisins kunni það og ef hann rekst á illa mótaða verkferla í aðstæðum sem sérfræðingurinn valdi af grunnhyggni eða neyðist til að nota hugbúnað sem var ekki valinn af faglegum verk-sjónarmiðum heldur faglegum upptalningar-sjónarmiðum, getur það stórlega skaðað framleiðni, gæði og starfsánægju fyrirtækisins.
Fólk sem hefur rekið fyrirtæki og haft mannaforráð og þurft að læra af mistökum og eigin reynslu hvernig best er að leiða starfshópa til hámörkunar í framleiðni, gæðum og ábyrgð, veit að sálfræðiþátturinn skiptir mestu máli og það einnig á hugbúnaðarsviðinu.
Í vali á hugbúnaði skiptir starfsfólk engu máli hvað sé best eða nýjast. Ein stofnun með hundrað starfsmönnum kemur hér í hugann. Ákveðið var að athuga hvort grundvöllu væri fyrir því að fasa út MS Word og venja þriðjung starfsfólks á OpenOffice í staðinn. Þetta gekk þokkalega og var reiknað út að þá þyrfti ekki að endurnýja hundrað notendaleyfi á þriggja ára fresti.
Allir þessir starfsmenn notuðu Lotus Notes 6 og 8 við vinnu sína og ekki einn einasti starfsmaður né yfirmaður vissi eða rak sig á að Lotus Symphony (sem var IBM útgáfa af OpenOffice) var innbyggt í Lotus Notes Client allra starfsmanna og var hluti af vinnuumhverfi þeirra.
Rétt eins og með sniðmátin sem áður voru nefnd, þá kynnist maður mismun á hugbúnaði jafnframt sínu eigin takmörkunum en ekki er alltaf sjálfgefið að það leiðist út í gæði og ábyrgð við vinnu.
Oft eyða grúskarar tíma í að finna út hvernig megi stilla tölvur sínar á mismunandi vegu, hvaða forrit þeir verði að setja inn í stað þeirra sem fylgja stýrkierfum eða finna leiðir til að gera endurstillingar á uppsetningum (Options, Preferences). Stundum venur maður sig einnig af sérviskunni.
Lengi vel sótti ég alltaf XFE skráagramsarann (File Browser) til að nota í Gnome Desktop því mér fannst ýmsu ábótavant í Nautilus sem er algengastur. Þegar þetta er ritað hef ég fyrir löngu hætt að nota XFE og vanið mig á Nautilus í staðinn.
Í mörg ár var það mitt fyrsta verk að innsetja Winamp á nýuppsettri tölvu, en hætti þessu fyrir mörgum árum og er VLC eini spilarinn sem hvarflar að mér að nota en það þýðir ekki að ég prófi ekki öðru hvoru aðra spilara.
Hver kannast ekki við Nullsoft uppsetjarann (Setup) sem er frír hugbúnaður sem forritarar geta notað til að auðvelda notendum að uppsetja forrit á Windows tölvum en Nullsoft var einmitt þróað í upphafi af snillingum á borð við Justin Frankel sem þróuðu fyrstu Winamp útgáfurnar. Þeir stofnuðu síðar Cockos (www.cockos.com) og einir manna hafa sýnt að hægt sé að gera eitthvað af viti með „C++“.
Forritun
Textaritlar eru gott dæmi um inntak greinarinnar: Hvað er betri hugbúnaður? EditPlus er minn uppáhalds textaritill (en þó ekki nýjasta útgáfa hans). Þessi afbragðs ritill er byggður á Crimson Editor sem hægt er að niðurhala og breyta (með C++) en nokkrir aðdáendur reyndu að breyta honum í Emerald Editor þegar Crimson þróunin strandaði.
EditPlus er Shareware – sem merkir að þú getur sótt hann og notað hann frítt en ert minntur á að kaupa notendaleyfi ef þú skráir hann ekki. Crimson og Emerald eru hins vegar Opinkóta (Open Source). Oft hefur það hvarflað að mér hvort ég ætti – til gamans – að gera JCrimson í Java.
Kannski geri ég það einn daginn, kannski ekki. Ég var mikill aðdáandi Java forritunar fram að útgáfu 1.3 en finnst í dag ömurlegt að nota þetta forritunarmál sem í dag er einna líkast reglugerðabendu sem er útgefin af nokkrum nefndum og hefur ekki við að bæta inn öllum vitleysum sem þeim dettur í hug og allir aðdáendur Loðvíks fjórtánda hrópa húrra í hvert sinn sem nefndin montar sig.
Sem minnir mig á athugasemd Ken Thompson um “C++” en Java virðist hafa farið svipaða leið niður í svarthol sjálfumgleðinnar. Þegar ég lærði “C++” á sínum tíma tók ég út fyrir hversu mikið hugsunardrasl það er.
Þegar ég var búinn að læra það ákvað ég að gefa bækurnar og að snerta það aldrei aftur, þegar ég svo Gúglaði hvort fleiri hefðu komist að sömu niðurstöðu, fann ég athugasemd Ken’s, en hann var einn af höfundunum að “C.” Hið sama er uppi á teningnum með Java, þess vegna var Scala búið til og áhugaverð vinna er unnin að þróun EA (Elegant Objects).
Hérlendis höfum við þó fallið í svarthol sjálfumgleðinnar að engin rökræn umræða er meðal fagaðila um hvað sé vandaður hugbúnaður eða skilvirk tölvukerfi. Nýjungahóran svífur klæðalítil yfir vötnunum og allir hafa sannfært sig um að Íslendingar standi fremst á hugbúnaðarsviði því þeir fengu “Code Page 861″ fyrir löngu síðan og hafa tölvukeyrt menningu sína svo kyrfilega að hérlendis er hvorki hreyfanleiki í veruleika né hugsun lengur.
Fyrir óupplýsta þá er yfirlýsingagleði sérstakt menningar-fyrirbæri á Íslandi og tímabært að innleiða hana í hugbúnaðargeirann.
Þessa dagana er ég að venja mig á að nota Kate frá kde hópnum og líkar ágætlega. Allir forritarar vita hins vegar að til eru mörg hundruð útgáfur textaritla og eins og allir kerfisstjórar og forritarar vita, þá er ekki hægt að gera neitt af viti í tölvu nema hafa góðan textaritil. Mörgþúsund manns um allan heim geta ekki hugsað sér vinnudaginn án Vi – og ég var einu sinni í þeim hópi.
Eitt sinn var ég að laga nokkra kóta í stóru hugbúnaðarkerfi. Vanur forritari sem kom þar að, rak upp stór augu þegar hann sá að ég var að forrita í textaritli en ekki í Netbeans eða Eclipse. Hann var gjörsamlega miður sín yfir þessum gamaldags vinnubrögðum. Hann átti við mig erindi, því það þurfti að finna (í sameiginlega safninu) einhverja kóta sem hann var að vinna með og gera flókna lagfæringu í hvelli, en ég þekkti þá grein kerfisins vel.
Meðan ég vann að lagfæringunum staldraði hann við og fylgdist með. Í lokin sagði hann „ég tek til baka það sem ég sagði áðan, ég sé núna hvað má gera þetta hratt með gamla laginu.“ Guð einn veit hversu oft ég hef gefið Eclipse, Netbeans eða IntelliJ einhvern séns og endað í góðum textaritli með vel hannaðar runuskrár (Bat files) í textaham (Command prompt).
Svipað og þegar ég þurfti eitt sinn að taka u.þ.b. 1800 myndskeiðaupptökur, finna út mismunandi upplausn í þeim, mismunandi “framerate” og einnig tímastimpilinn í meta-upplýsingum og síðan flokka myndskeiðin niður eftir þessum upplýsingum og að lokum endurkóta (re-encode) eins fljótt og hægt var.
Hér nýttist „ffprobe“ í textaham til að skanna safnið með runuskrá og demba úttakinu í „tab delimited“ skrá sem síðan var opnuð í töflureikni þar sem var fljótlegt að flokka niðurstöðurnar hratt með músinni. Eftirá var smíðuð runuskrá til að keyra á allt safnið meðan yðar einlægur fór út í smók og í lokin var aftur hægt að nota runuskrá til að láta ffmpeg samsetja nokkur hundruð (Concatenate) myndskeiðabúta í fáeina lengri.
Er hægt að eiga tölvu og ekki vera með ffmpeg uppsett? Allir vita að það er best, þegar kemur að vinnslu með myndskeið og hljóð, en þá þarf maður að nota textaham.
Á maður að bera saman IDE (Integrated Development Environment) fyrir forritun? Nær allir Java forritarar nota Eclipse, Netbeans eða IntelliJ. Þau eru allt saman einn stór haugur af drasli. Vissulega getur verið þægilegt að hanna notendaviðmót í sumum þeirra en ef maður hugsar langt fram í tímann frá sjónarhóli agaðrar hönnunar, þá er eins gott að kóta notendaframhliðina í textaritli og oft betra.
Þetta er þó ekki algilt. Margir eru hrifnir af „Bloodshed Dev C++“ en það er þróað í Delphi-Pascal og er til önnur útgáfa af því. Margir fullyrða að Delphi umhverfið var tær snilld þegar kom að Pascal forritun og þegar Borland klúðraði framhaldslífi þess, fæddist Lazarus sem að mínu mati er sama snilldin og Delphi var einu sinni.
Þeir sem hafa unnið að Lazarus og OpenPascal þróuninni hafa á síðustu tíu til fimmtán árum sýnt og sannað að sá andi sem Pascal og C voru upprunlega fædd af, stenst rækilega tímans tönn og þó það sé ekki í tísku um þessar mundir, er margt mjög spennandi að gerast þar.
Ótrúlega margir eru að ná góðum árangri að gefa út Pascal forrit sín fyrir Windows, Linux og MacOS úr sömu kótunum, og þá er átt við gæða forrit en ekki bara einhverja hugmyndadýrkun eða fídusafyllerí.
Svona má endalaust rífast um hluti; Mörg önnur IDE kerfi eru vinsæl s.s. CodeLite, Code::Blocks, Qt Creator, KDevelop, MS Visual Studio, svo fátt eitt sé nefnt af vinsælum nöfnum. Mín persónulega niðurstaða af að hafa prófað helling af þessu, hefur þegar komið fram.
Ef ég get kótað það í textaritli og smíðað Bat skrár til að styðja það, er ég góður, en Pascal geri ég í Lazarus og ef ég kóta C í Windows tölvu nota ég Pelles (og bíð í ofvæni eftir að einhver komi fram með Pelles fyrir Linux), þó ég þoli ekki IDE þá verð ég stundum að viðurkenna snjallar lausnir.
Eins og ég lagði upp með í byrjun þessarar greinar, þá er ekki til „besta forritið“ og hægt er að rífast um það endalaust.
Ég var einu sinni spurður á tölvunámskeiði hvernig ég færi að því að gera tiltekna hluti jafn hratt og á horfðist. Spurningin kom upp hjá starfsmanni fyrirtækis sem sent hafði hóp starfsmanna á námskeið til að fínpússa verkferla frekar en að læra á einstök forrit.
Þegar maður er að sýna nemendum á skjávarpa hvað maður gerir í tölvunni sinni, þarf að gera hluti frekar rólega og oft að útskýra hvert skref en stundum má sleppa því. Yfirleitt þarf að taka pásur ef nemendur eru að fylgja manni eftir, stundum þarf að biðja nemendur að sleppa músinni og horfa frekar á ferlana frá upphafi til enda og reyna að enduraka þá eftirá.
Sýnikennsla getur – eins og hér er lýst – reynt mikið á bæði leiðbeinandann og nemandann. Stundum þarf maður þó að stilla upp aðstæðum áður en sýnikennsla hefst og þá má gera hlutina á eigin hraða. Einn nemandinn í þessu tilviki var mjög reyndur og flínkur tölvunotandi og var jafnan búinn að öllum verkefnum langt á undan öðrum.
Hún tók hins vegar eftir því að þegar ég var að gera hluti á mínum eigin hraða til að stilla upp aðstæðum til sýnikennslu gerðust hlutirnir oft afar hratt.
Maður þurfti e.t.v. að stilla upp textaskjali, finna eitthvað á netinu, setja upp töflu í töflureikni eða undirbúa mynd fyrir sýnikennslu og hún hafði orð á að margt sem ég væri að gera við þessar aðstæður væru að gerast verulega hratt.
Ég sagði við hana að ég næði mun meiri hraða en aðrir því að ég hefði tileinkað mér notkun á flýtilyklum og lyklaborðs skipunum, jafnvel við notkun myndvinnslu, frekar en að reiða mig á músina. Hún trúði því ekki að það væri hægt og hélt því fram að músin væri ávallt fljótari.
Ég bauð henni að stilla upp tvennum verkaðstæðum og við gætum borið það saman. Niðurstaðan var á einn veg, lyklaskipanir gáfu meiri hraða ein músunin. Hér má koma fram að þetta er einmitt ástæðan fyrir hversu hrifinn ég var af XFE gramsaranum.
Það er ekki oft sem þú sérð notkun á Shift+Insert og Ctrl+Insert eða Shift+Delete, en til er fólk sem kann þessa lykla og veit að þeir eru fljótlegri Ctrl+C eða Ctrl+V eða Ctrl+X og langtum hraðvirkari en Edit-Copy eða Edit-Paste eða Edit-Cut.
Ég hef komið að viðhaldi margra Íslenskra forritakerfa sem eru svo illa forrituð að það eru heilu ársverkin í að viðhalda þeim og klastra inn viðbætum. Yfirleitt er of dýrt að hjóla til baka og endurhanna þau, því notkun þeirra er orðin svo yfirgripsmikil bæði innan ríkiskerfa og einnig úti á markaði.
Ég hef einnig komið að kerfum sem eru því sem nær villulaus og hef tekið þátt í hönnun slíkra lausna. Sum þeirra eru þannig hönnuð og uppsett að ef upp hefur komið villa (Bug) er lagfæring skjótvinn og ef ákveðið var að gera stækkun eða viðbót, var það sömuleiðis aðgengilegt.
Þetta snýst allt saman um högun og verkferla og það byggst allt á grúski og íhugun og endurmati áður en fyrstu kótarnir eru settir saman.
Ég hef sömuleiðis séð tvennt of oft, annars vegar verkbeiðni þar sem munnleg lýsing og stuttar glósur eru taldar nóg til að útskýra hvað eigi að smíða, og yfirborðskennd loforð um að “hitt og þetta sé ekkert mál.” Svo líður og bíður tíminn, reikningurinn stækkar, því beiðnin var klúður og sá sem við henni tók algjör fúskari í hugsun (þó hann væri með prófgráður).
Síðan fer forritið í loftið en vindur síðan uppá sig eins og langavitleysa samanvöðluð í óleysanlegum Gordíonshnút: En lúkkar flott!
Hversu margar útgáfur eru komnar af Windows eða Linux eða algengum forritum í þessum umhverfum? Hversu margar útgáfur hafa komið fram af C eða Pascal. Hvað hefur forritunar umhverfið sem þú notar, komið fram í mörgum nýjum útgáfum? Hver einasta útgáfa sem út kemur, er viðurkenning á að sú á undan var drasl.