1. kafli. Inngangur

Bók þessi er til orðin af þörf á íslenzkri kennslubók í SQL[1] gagnagrunnsfræði. Mikið er til af hugbúnaði sem byggir á þess konar tækni og sýnist sitt hverjum um hvaða búnaður er bestur. Slík umræða verður eftirlátin mér hæfara og vitrara fólki. Deila má t.d. um hvort biðlara/miðlara tól á borð við Oracle og SQL Server fylgi betur SQL staðlinum frekar en MySQL.

Ástæðan fyrir því að ég valdi MySQL sem viðfangsefni var sú að kerfið er vinsælt í vefsíðugerð auk annarra þátta: MySQL kostar ekkert fyrir námsfólk og þar sem búnaðurinn tilheyrir opnum lind­um (e. Open Source) er auðvelt bæði að nálgast hugbúnaðinn og upplýsingar um samsetningu hans.

Um mitt árið 2003 sótti ég um og fékk ég styrk frá Menntamálaráðuneytinu til verksins en vegna annarra verkefna dróst að ég hefði tíma til að ljúka verkinu það ár. Úr því rættist sumarið 2004 að ég hafði aðstæður til að sinna því af þeirri athygli sem verkið verðskuldar.

Aðaláhersla er lögð í bókinni á gagna­grunns­fræði og SQL málið. Því sterkari sem notandinn er í notkun þessara fræða, því betur á hann með að tileinka sér þau kerfi sem byggja á þeim. Fullyrði ég af reynslu minni í kennslu að því meir sem nemandinn tekst hlutlægt á við þessi fræði breikkar hann og dýpkar getu sína og færni án þess að vera háður einu vörumerki öðru fremur.

Bókina ber því fyrst og fremst að lesa sem gagna­grunnsbók með MySQL sem fararskjóta. Fyrsti kafli bókarinnar einblínir á gagnagrunns hugsunarhátt og þau hugtök sem þar að lúta. Því næst er stutt yfirferð sem stiklar á stóru með sýnidæmum sem allir gagnagrunns notendur og hönnuðir þurfa að skilja og kunna. Næstu kaflar þar á eftir er handbók og uppflettirit yfir þætti sem MySQL styður.

Þar sem MySQL nýtur mikilla vinsælda í gagnvirkri vefsíðugerð var freistandi að blanda saman umfjöllun um MySQL og PHP forritun í eina bók. Slíkar bækur eru algengar erlendis. Ég tók hins vegar þá afstöðu að einblína á gagnagrunns tæknina.

Alla bókin út í gegn hef ég reynt að nota íslensk hugtök eins og þau eru þekkt í Tölvuorðasafni Íslenskrar málnefndar. Alls staðar þar sem því er viðkomið hef ég sett tilsvarandi ensk hugtök í sviga aftan við notkun íslenska hugtaksins. Þetta er gert bæði til glöggvunar fyrir þá lesendur sem lesa sambærilegar bækur á ensku eða MySQL handbókina sem gefin er út á ensku.

Sumum kann að þykja blöndun enskra hugtaka óþægileg við lestur en ég trúi að það muni auðvelda notendum að tengja efni bókarinnar við aragrúa ítarefnis og bóka sem er fáanlegt á ensku máli, bæði um MySQL svo og gagna­grunnsfræði almennt. Hef ég einnig skellt neðanmáls athugasemdum víðsvegar í bókinni með beinum útskýringum á hugtökum (með tilvísun í ensku orðin) sem fletta má upp í Tölvuorðasafninu.

Það er gott að eiga Tölvuorðasafnið og fletta upp í. Bókin styður við vöxt íslenskrar tungu í tölvutækni. Einnig má fletta upp í orðasafninu á vefsetrinu http://ismal.hi.is/ob.

Bið ég lesandann velvirðingar ef eitthvað má betur fara eða skilar sér illa. Ég vil hvetja lesandann til að senda tölvuskeyti á höfund með athugasemdum, af hvaða tagi sem er. Athugasemdir sem verða til þess að bæta næstu útgáfa bókarinnar ættu að skila sér þangað. Sömuleiðis hvet ég lesandann til að fylgjast með á nalgun.is varðandi ítarefni, villuleiðréttingar og annað.

Umfjöllun bókarinnar miðast við MySQL 5.0. Ef einhverju er haldið fram varðandi eiginleika (e. Features) búnaðarins á það við um þessa útgáfu nema annað sé tekið fram. Allir kótar sem birtast í bókinni hafa verið prófaðir og framkvæmdir í Windows útgáfu MySQL og flestir í Linux útgáfunni. Á báðum verkvöngum (e. Platform) var notuð „MySQL 5.0 Alpha.“ Helstu undantekningar frá prófuðum kótadæmum eru kótar í kaflanum um innbyggð föll en flest dæmanna þar má einnig finna í handbók MySQL. Öll sýnidæmi eru hinsvegar mínar eigin niðurstöður og prófanir.

 


[1] SQL er stytting enska hugtaksins Structured Query Language. Tölvuorðasafnið þýðir þetta þannig: [enska] SQL [íslenska] SQL [skilgr.] Heiti á fyrirspurnarmáli fyrir töflugagnasöfn. [skýr.] SQL er stytting á “Structured query language”.

 

 

This entry was posted in MySQL bók. Bookmark the permalink.

Comments are closed.