MySQL eða Oracle eða MariaDB

Saga MySQL er að nokkru leyti tengd sögu mSQL gagnagrunns­þjónsins og má rekja til baka til ársins 1994. Helstu vörumerki þess tíma voru Oracle, Sybase og Informix. Þessi kerfi sem öll kostuðu og kosta enn skildinginn voru hönnuð til að miðla miklu magni gagna og oft innan flókinna vensla.

Öll þessi kerfi kosta einnig mikið í vinnslu (e. Resource intensive). Bæði er að kerfin eru kostnaðarsöm í notendaleyfum auk þess að til þurfti öflugustu vélar undir þau.

Helsti tölvukosturinn voru tölvur á borð við Digital Alpha RISC System, Sun SPARC  eða sambærilegar vélar sem eingöngu voru notaðar með UNIX stýrikerfum oft sérhönnuðum fyrir hvern verkvang fyrir sig.

Stór fyrirtæki og stærri háskólar áttu auðvelt með að eyða milljónum í notendaleyfi og vélbúnað en smærri aðilar og einstaklingar höfðu um fátt að velja nema þá helst veigaminni skjáborðsforrit á borð við dBase, Paradox og síðar MS Access.

Þó eitthvað væri í boði af ódýrum miðlara/biðlara lausnum þá studdu þau síður við SQL staðalinn en buðu frekar eigin lausnir.

Upprunalegur höfundur MySQL, Michael „Monty“ Widenius, hafði unnið við gagnagrunnsþróun hjá sænska fyrirtækinu TcX frá árinu 1979 og meðal annars þróað þar gagnasafns-umsjónarkerfið UNIREG til notkunar innanhúss. Árið 1994 hóf TcX þróun á vefværum hugbúnaðarlausnum og notaði UNIREG gagnagrunna sem gagnatrog.

Hönnuðirnir hjá TcX litu til SQL, tískuyrðis sem átti vaxandi vinsældum að fagna og gæti hentað sem framhlið á lágtækni stefjusöfnin (e. Low Level Libraries) sem þeir notuðu. Við fyrstu sýn virtist sem mSQL gæti hentað en við frekari eftirgrennslan og rannsóknir var ljóst að þörf var á að kóta SQL vél (SQL Engine) frá grunni.

Fyrst höfðu þeir farið þá leið að geyma grunna í mSQL vél og hannað forrit til samskipta við hana en skiptu svo út gagnagrunns-vélinni án þess að skipta út forritunum. Þetta gerði þeim kleyft að spara sér heilmikla vinnu. Eins og fyrir algjöra tilviljun stóðu þeir uppi með söluhæfan gagnagrunns miðlara byggðan á SQL tækni.

Fljótlega var tekin sú ákvörðun að gefa MySQL út í samræmi við hugmyndir Peter Deutsch hjá Aladdin Enterprises, sem hafði áður gefið út Ghostscript. Hugmyndin virkar þannig að útgefandi á allan höfundar- og útgáfurétt og leyfir öðrum að nota forritið svo fremi þeir selji það ekki sem hluta af sinni lausn.

MySQL sló fljótt í gegn í tölvuvinnslu um allan heim. Einstaklingar og smærri fyrirtæki, að ekki sé minnst á skóla, gátu sótt og sett upp hraðvirkan og einfaldan gagnagrunnsmiðlara fyrir Unix og Windows umhverfi (og Mac) og þróað grunna sem að mestu voru samhæfðir útfærslum stærri og dýrari kerfa.

Kerfið varð fljótt hluti af Linux dreifingum (Distros) og undantekningarlaust í boði hjá vefhýsingarfyrtækjum og þá frítt. Sá dagur kom að MySQL vörumerkið og fyrirtækið sem rak hann var keypt af Sun Microsystems. MySQL AB í Svíþjóð hafði ávallt boðið uppá þjónustu við aðila sem vildu reka grunna á MySQL kerfum en voru tilbúnir að greiða fyrir þjónustu.

Ekki löngu eftir eigendaskiptin var Sun Microsystems keypt af Oracle og rannþá MySQL inn í eignasafn Oracle. Fljótlega upp úr því komst Monty Widenius að þeirri niðurstöðu að honum mislíkaði hvernig Oracle ætlaði að viðhalda hugbúnaðinum og stofnaði Maria DB sem hóf áframhaldandi þróun opins hluta kerfisins.

Síðan MariDB hóf starfsemi hefur það kerfi notið viðlíka velgengni og MySQL áður. Flest vefhýsingarfyrirtæki bjóða MariaDB sem möguleika og það kerfi keyrir hnökralaust þá grunna sem áður voru hannaðir fyrir MySQL.

 

This entry was posted in Gagnagrunnar og SQL and tagged . Bookmark the permalink.

Comments are closed.