Hraði

Við prófanir hefur komið í ljós að MySQL er afar hraðvirkur, hraðvirkari en nærri allar samkeppnis­hæfar lausnir. Ein af ástæðunum fyrir þessum mikla hraðamun er sú að miðlarinn styður ekki öll smáatriði SQL staðalsins.

Sumir telja MySQL einnig til tekna að kótinn miðlarans er nær eingöngu gerður af einum og sama manninum sem jafnframt býr yfir margra ára reynslu í kótun. Þess vegna sé lítið af um­fremdar (e. Redundant) kóta í kerfinu. Megnið af algrímunum[1] sem kótinn er byggður á voru gerð á tímabili þegar tölvur voru frekar hægvirkar (miðað við hraðvirkari vélar nútímans) með takmörkuðu vinnsluminni.

Helstu breytingarnar kótans í gegnum árin taka tillit til aukins vinnsluminnis með því að nýta sér hluta þess sem skyndiminni. Af þessum sökum voru algrímin í upphafi þróuð til að vera hraðvirk án þess að krefjast mikils af vélbúnaðinum.

Líta má á að kótinn hafi aðeins orðið skilvirkari með árunum. Miðað við þær vinnureglur sem hér koma fram þá mega notendur MySQL treysta því að nýir eiginleikar sem birtist í kerfinu eigi ekki að koma niður á hraða, því hraði og áreiðanleiki hafa jafnan verið aðal vörumerki miðlarans.

Þegar MySQL var fyrst hannaður, og allar götur síðan, hefur aðal krafan verið hraði og aftur hraði, miklu háværari krafa en krafan um fjölda eiginleika (e. Feature quantity). Þess vegna hefur verið sneitt hjá þróun dýrra[2] eiginleika sem eftir sem áður má setja upp með forrits-rökum. Í greinum eftir höfunda og í kóta dæmum hefur verið sýnt fram á að þetta stenst vel og m.a. er hægt að framkvæma færslur (e. Transactions) og ákvæði framandlykla algjörlega með forrits-rökum og nýta þar bæði þrædda vinnslu þjónsins og læsingu á töflum.

Á aðal vefsetri miðlarans (www.mysql.com) er að finna efni af þessu tagi auk langra lista yfir alla þá þætti sem miðlarinn styður. Það sem helsta athygli vekur við þann lestur er að þróun kerfisins hefur verið mjög hröð og í dag (útgáfa 5.0) eru nærri allir þættir, sem hefur skort hingað til, komnir á hlaðborðið (salat barinn). Bækur sem hafa tekið síðupláss í að telja upp hvað hægt er að gera og hvað ekki hægt að gera úreldast því hraðar.

Fyrir það að MySQL hönnuðirnir völdu í upphafi þá hluta SQL staðalsins sem þeim hentaði er ekki hægt að segja að forritið sé samhæft staðlinum í öllum atriðum. Þetta er þó álitamál því allar aðgerðir þjónsins fylgja staðlinum að einhverju leyti og í því helsta sem máli skiptir. Forritari sem kann skil á SQL getur því unnið með gagnagrunna í miðlaranum áreynslulítið. Auk þessa er það stefna MySQL AB að þjónninn verði í náinni framtíð al-samhæfður við ANSI SQL 92 staðalinn. Allt virðist líka stefna að þeim brunni að þetta muni standast.


[1] [íslenska] algrím hk. [enska] algorithm [sh.] reiknisögn kv., algóritmi kk. [skilgr.] Endanleg röð skýrt afmarkaðra reglna til þess að leysa verkefni.

[2] Dýr (eða kostnaðarsamur) er hér notaður í þeirri merkingu að nota mikið vinnsluminni, þurfa mikinn örgjörvahraða eða gera kröfur til kraftmikillar vélar eða stýrikerfis.

This entry was posted in Gagnagrunnar og SQL and tagged . Bookmark the permalink.

Comments are closed.