Notendaleyf MySQL og MariaDB

MySQL notendaleyfi eru gefin út miðað við sanngjörn skipti (e. Fair exchange) eða „Quid Pro Quo,“ sem útleggst sem „eitthvað fyrir eitthvað.“

Eins og fram hefur komið er MySQL gefið út með samskonar hætti og Aladdin Ghostscript, sem merkir að uppruna-kótinn (e. Source code) er opinber, miðlarinn og biðlaraforritin eru frí fyrir  UNIX (og Linux). Auk þess eru eldri (úreltar) útgáfur algjörlega opnar með GPL leyfi.

Þetta merkir að sé MySQL miðlarinn notaður á UNIX/Linux verkvangi, hvort heldur í persónuþágu eða viðskipta kostar hann ekki neitt. Þó eru sett mörk á þessa skilgreiningu og óskað leyfisgreiðslu ef:

  •  MySQL miðlarinn er seldur til þriðja aðila eða sem hluti annars hugbúnaðar eða þjónustu.
  • Notandi krefjist greiðslu fyrir t.d. vinnu við að setja upp og viðhalda MySQL þjóni fyrir viðskiptavini.
  • MySQL miðlaranum er dreift á miðli í útgáfu (t.d. söluútgáfu eða á disk) og tekin er greiðsla fyrir miðilinn (þó ekki sé nema að hluta).
  • MySQL er notaður á Win32 (Windows 95, 98, NT, 2000, XP, 2003) kerfi.

Við þær aðstæður að notendaleyfis er krafist þarf aðeins eitt leyfi fyrir þá vél sem keyrir miðlara forritið „mysqld“. Eitt leyfi dugar fyrir vélina þó hún hafi fleiri örgjörva og þó hún keyri mörg tilvik (e. Instance) þjónsins, einnig er eitt leyfi nóg án tillits til fjölda þeirra biðlara sem tengjast grunnum þjónsins.

Eftirfarandi heimspeki er lögð til grundvallar MySQL notendaleyfinu:

  • SQL biðlara safnið (e. Client library) skal vera frítt svo það megi innifela í söluvöru án takmarkana.
  • Fólk sem vill hafa frían aðgang að hugbúnaðinum, sem útgefendur hans hafa lagt mikla vinnu í, geti fengið hann að því tilskyldu að þeir séu ekki að hagnast beinlínis á honum m.a. með dreifingu.
  • Fólk sem vill nota hugbúnaðinn í eigin kerfum, sem jafnframt séu til sölu í hagnaðarvon, getur fengið það en ættu að greiða fyrir afnotin.
  • Venjuleg innanhúss notkun sé ókeypis. Hins vegar vilji einhver nota miðlarann í hagnaðarskyni, gæti sá sami aðstoðað við þróunarkostnaðinn með því að kaupa þjónustu samning, með þátttöku í skjölun, kóta-dæmum eða á einhvern annan hátt.
  • Stefnan er sú að enginn ætti að þurfa að greiða fyrir hefðbundnar uppfærslur en þó gæti komið fyrir að greiðslu væri óskað fyrir meiriháttar uppfærslur með nýjum eiginleikum s.s. færslu stuðningi (e. Transaction support).

Þannig ætti MySQL að vera góð fjárfesting miðað við aðrar lausnir.

Win32 verkvangurinn (Windows 95 og yngri Windows útgáfur) er stýrikerfi selt í hagnaðarskyni (e. Commercial system) og öll þróunar tól og forritunar umhverfi fyrir það eru dýr. Þess vegna sér MySQL AB sér ekki fært annað en að krefjast greiðslu fyrir notkun miðlarans í því umhverfi.

Hvað varðar verð á notendaleyfi, þ.e. við þær aðstæður þar sem þeirra er krafist er best að lesa skjalasafn útgefanda sem nálgast má á framangreindri slóð. Verðið fyrir eitt notendaleyfi var um árabil aðeins 200 USD (dollarar) en virðist hafa hækkað í 495 USD þegar þetta er ritað.

Hjá MySQL AB er boðin ágæt notendaþjónusta gegn vægu gjaldi, og er framsett í mismunandi verð­flokkum. Án efa hentar slík þjónusta vel fyrir þá sem reka MySQL í viðskiptatilgangi eða undir miklu álagi.

This entry was posted in Gagnagrunnar og SQL and tagged . Bookmark the permalink.

Comments are closed.