SQL staðallinn

SQL staðallinn er fyrst og fremst tungumál. Tungumálið er málskipun (e. Syntax) sem skilgreinir málfræði og rithátt sem forritari getur notað til vinnslu með gagnasöfn. Skipta má SQL málinu í tvo þætti: Annars vegar gagna-skilgreiningarmál og hins vegar gagna-meðhöndlunarmál.

Gagna-skilgreiningarmál, á ensku Data Definition Language eða DDL, eru notuð til að skilgreina gagnageymslur. Gagnageymslur fjalla um hvernig gagnagrunnurinn eða gagnasafnið skuli uppbyggt.

Þessi uppbygging nær til skilgreiningar á töflum, gagnategundum innan taflanna og notkunarréttindi s.s. hver má lesa gögn, hver má skjóta inn gögnum og hver má breyta þeim.

Gagna-meðhöndlunarmál, á ensku Data Manipulation Language eða DML er málfræði til að meðhöndla upplýsingar. Þessi málfræði tiltekur hvernig gögn eru send inn í töflur og sóttar úr þeim, upplýsingunum breytt og hvernig þeim er eytt.

SQL staðallinn er því vel útfærð og hnitmiðuð málfræði sem nærri allir framleiðendur gagnasafns-umsjónarkerfa hafa orðið ásáttir um. Í dag eru það stofnanirnar ANSI (American National Standards Institute) og ISO (International Standards Organisation) sem gefa staðalinn út. Fjöldi framleiðanda hafa kosið að fylgja staðlinum en flestir ef ekki allir gera það á sinn eigin hátt. Þannig má læra SQL í hvaða SQL-samhæfðu kerfi sem er og á skjótum tíma tileinka sér næsta kerfi því þekkingin er yfirfæranleg.

SQL92,  SQL99, SQL2, SQL3

Oft er talað um að SQL staðallinn sem gefinn var út árið 1989 sé SQL 1 og útgáfan frá 1992 sé SQL 2. Árið 1999 kom út SQL 3. Hvaða útgáfu miðlarinn styður er ávallt álitamál því flest gagnasafns-umsjónarkerfi styðja að nær öllu leyti við SQL 1, að mestu leyti við SQL 2 og mörg styðja við undirmengi úr SQL 3. Almennur notandi sér aldrei þessa staðla að fullu og fæstir (almennir notendur) hafa ástæðu til að kaupa staðalinn frá framangreindum stofnunum.

Þeir sem kaupa staðalinn eru framleiðendur gagnasafns-umsjónarkerfa sem velja að styðja við það sem þeim hentar í honum. Salatbar ekki satt? Hvað um það, þá styðja allir nægilega vel við SQL til að sá sem kann eða skilur almennar málreglur hans getur auðveldlega tileinkað sér kerfin.

 

 

This entry was posted in MySQL bók and tagged . Bookmark the permalink.

Comments are closed.